Lög Félags umhverfisfræðinga

Lög Félags umhverfisfræðinga

I. Kafli- Nafn og aðsetur

1.gr.
Nafn félagsins er Félag umhverfisfræðinga á Íslandi og er skammstafað FUMÍ. Á ensku heitir félagið The Icelandic Society of Environmental Scientists, skammstafað ISES. Félagssvæði þess er landið allt. Aðsetur og varnarþing er í Reykjavík.

II. Kafli- Hlutverk og markmið

2.gr.
Markmið félagsins eru að;
– efla faglega og vísindalega þekkingu félagsmanna,
– stuðla að umræðu og fræðslu um umhverfismál,
– stuðla að innlendu og alþjóðlegu samstarfi um umhverfismál,
– auka þekkingu og skilning á starfi umhverfisfræðinga með þverfaglega menntun,
– efla samheldni og félagsvitund félagsmanna.

3.gr.
Markmiðum sínum hyggst félagið ná meðal annars með því að;
– halda uppi fræðslustarfsemi, svo sem ráðstefnum, námskeiðum og erindaflutningi,
– stunda hvers konar útgáfu á efni um umhverfisfræði og umhverfismál sem talin er þjóna markmiðum félagsins,
– efla tengsl milli umhverfisfræðinga hér á landi og erlendis og hafa tengsl við hliðstæð samtök erlendis,
– efla persónuleg kynni umhverfisfræðinga, meðal annars með því að stofna til mannfagnaða,
– stuðla að og efla símenntun umhverfisfræðinga.

III. Kafli- Aðild og félagsmenn

4.gr.
Félagsmenn geta orðið:
a) Þeir, sem lokið hafa viðurkenndri prófgráðu frá háskóla eða hliðstæðri menntastofnun í umhverfisfræðum eða í skyldum greinum, s.s. í umhverfis- eða auðlindastjórnun.
b) Þeir sem lokið hafa a.m.k. BA, BS eða samsvarandi gráðu úr háskóla í annarri fræðigrein og að auki sem samsvarar 60 einingum (ECTS) á sviði þverfaglegra umhverfisfræða að mati námsnefndar. Grunnnám skal að lágmarki fela í sér 18 ECTS einingar í greinum sem sannarlega tengjast hinum þremur grunnstoðum sjálfbærrar þróunar, þ.e.a.s. vistkerfi, samfélagi og hagkerfi. Námið styrki þannig þverfaglega þekkingu á umhverfismálum, að mati námsnefndar.

Ef sótt er um aðild á grunni b-liðar ber að rökstyðja í umsókn/tiltaka þau námskeið sem sannarlega tengjast hinum þremur grunnstoðum sjálfbærrar þróunar. Sá sem óskar að gerast félagi skal senda stjórn félagsins skriflega umsókn um inngöngu.

5. gr.
Námsnefnd er skipuð þremur félagsmönnum til þriggja ára í senn og eru þeir kosnir á aðalfundi. Námsnefnd endurskoðar reglulega verklagsreglur um menntunarkröfur sem gerðar eru til nýrra félagsmanna og tekur þá mið af lögum félagsins á hverjum tíma og kröfunni um þverfaglega menntun umsækjenda á sviði umhverfisfræða. Námsnefnd leggur mat á hvort nám umsækjanda fullnægir skilyrðum og sendir stjórn skriflegt álit sitt. Stjórn tekur endanlega ákvörðun um hvort félagsaðild er veitt.

6.gr.
Nemendur sem stunda nám s.br. 4.gr. geta óskað eftir því við stjórn félagsins að fá aukaaðild að félaginu. Félagsmenn með aukaaðild hafa hvorki kjörgengi né kosningarétt á fundum félagsins en hafa málfrelsi og tillögurétt. Þeir eru ekki krafðir um félagsgjöld.

7.gr.
Félagið getur kjörið heiðursfélaga samkvæmt tillögu frá stjórn félagsins. Tillaga um slíkt kjör skal borin fram á aðalfundi og telst hún samþykkt ef 2/3 hlutar fundarmanna greiða henni atkvæði.

8.gr.
Úrsögn úr félaginu skal tilkynna skriflega.

Skuldi félagsmaður árgjöld tveggja ára, skal stjórn fella nafn hans af félagaskrá að undangenginni skriflegri viðvörun. Félagsmaður öðlast félagsréttindi sín á ný, þegar árgjaldaskuldin er að fullu greidd.

Stjórn félagsins getur vikið félagsmanni úr félaginu ef hann hefur brotið lög félagsins eða með öðrum hætti sýnt af sér háttsemi sem er andstæð hagsmunum félagsins. Áður en tekin er ákvörðun um brottvísun skal gefa félagsmanni kost á að veita andsvör um hina fyrirhuguðu ákvörðun. Ofangreind samskipti skulu vera skrifleg. Félagsmaður getur krafist félagsfundar til að bera ákvörðun stjórnar um brottvikningu hans undir fundinn.

9.gr.
Aðalfundur ákveður árgjald félagsmanna

IV. Kafli- Félagsfundir

10.gr.
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda í september/október ár hvert. Til fundarins skal boðað með því að senda fundarboð til félagsmanna í tölvupósti, með tveggja vikna fyrirvara hið skemmsta, og telst hann þá löglegur. Í fundarboði skal getið þeirra mála sem kunnugt er að lögð verði fyrir fundinn auk venjulegra aðalfundarstarfa sbr. 11.gr. Tillögur að lagabreytingum skulu sendar félagsmönnum í tölvupósti a.m.k. viku fyrir aðalfund.

11.gr.
Á aðalfundi skal fjalla um eftirfarandi liði:
– Kosning fundarstjóra og fundarritara.
– Skýrsla stjórnar kynnt og rædd.
– Lagðir fram reikningar síðasta árs til samþykktar.
– Mögulegar lagabreytingar kynntar, ræddar og afgreiddar.
– Hugsanlegar ályktanir/ tillögur kynntar og ræddar.
– Kosning stjórnar og varamanns.
– Kosning skoðunarmanna reikninga
– Önnur mál.

12.gr.
Á aðalfundi hafa allir félagsmenn sem skuldlausir eru við félagið kjörgengi og atkvæðisrétt. Ekki er leyfilegt að veita öðrum félagsmanni umboð sitt á aðalfundi. Kosning til stjórnar fer fram með leynilegri atkvæðagreiðslu.
Stjórn félagsins skipa formaður, gjaldkeri, ritari og tveir meðstjórnendur. Stjórnarmenn eru kosnir til tveggja ára í senn. Stjórnin skiptir með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. Einnig skulu vera kosnir tveir varamenn stjórnar. Árlega eru kosnir 3 stjórnarmenn og 1 varamaður eða 2 stjórnarmenn og 1 varamaður eftir því sem við á. Í öllum málum sem þarfnast atkvæðagreiðslu ræður einfaldur meirihluti, nema sérstaklega sé kveðið á um annað. Ef atkvæði falla jöfn skal hlutkesti ráða.

13.gr.
Almennan félagsfund skal halda samkvæmt ákvörðun stjórnar eða að kröfu þriðja hluta félagsmanna. Heimila má umhverfisfræðinemum og öðrum en félagsmönnum aðgang að almennum félagsfundum, eftir því sem stjórn félagsins ákveður hverju sinni.

V. Kafli- Stjórn

14.gr.
Stjórn fer með æðsta vald í málefnum félagsins á milli aðalfunda og sér um að framfylgja samþykktum aðalfundar og lögum félagsins, auk þess að bera ábyrgð á fjárreiðum félagsins.

15.gr.
Stjórn félagsins tekur nánari ákvarðanir um starfsemi félagsins og ræður málefnum þess með þeim takmörkunum er lög þessi setja. Stjórn er heimilt að kveðja sér til aðstoðar félagsmenn til afmarkaðra verkefna, nefndarstarfa o.s.frv.

16.gr.
Formaður skal boða stjórnarfundi með tryggilegum hætti og hæfilegum fyrivara. Stjórnarfundur er ályktunarfær ef meirihluti stjórnarmanna sækja fund. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Nú eru atkvæði jöfn og ræður þá atkvæði formanns úrslitum. Gerðir stjórnarinnar skulu bókfærðar.

17.gr.
Komi upp sú staða að stjórnarmeðlimur hætti skal varamaður taka hans sess í stjórn félagsins. Komi fram vantraust á stjórnarmeðlim skal boða til stjórnarfundar þar sem vantrauststillaga er borin upp. Sé hún samþykkt af meirihluta stjórnar, skal viðkomandi aðili víkja úr stjórn þá þegar. Ef skipa þarf nýjan einstakling í stjórn félagsins, skal stjórnin taka tillit til úrslita kosninga varamanna í stjórn á síðasta aðalfundi. Ef atkvæði hafa fallið jöfn eða varamenn sjálfkjörnir á aðalfundi skal hlutkesti ráða.

VI. Kafli- Fjármál

18. gr.
Reikningsárið skal vera frá 1. september til 31. ágúst. Stjórnarformaður og gjaldkeri hafa prókúru og halda reikninga yfir tekjur og gjöld félagsins. Gjaldkeri félagsins heldur utan um bókhaldið, hefur eftirlit með fjármálum félagsins og gengur frá ársuppgjöri. Reikninga félagsins skal leggja fyrir aðalfund til samþykktar.

19. gr.
Reikningar skulu endurskoðaðir af tveimur skoðunarmönnum reikninga sem kosnir eru á aðalfundi. Skoðunarmenn mega ekki sitja í stjórn félagsins á sama tíma. Skoðunarmönnum er heimilt, ef þeir telja þess þörf, að gera könnun á fjárhag og færslu bókhalds hvenær sem er á reikningsári.

VII. Kafli- Slit

20. gr.
Nú kemur fram tillaga um það að félaginu skuli slitið og skal hún þá sæta sömu meðferð sem tillaga til lagabreytingar, sbr. 21. gr. Við félagsslit skal skipa 3 fulltrúa í sérstaka skilanefnd og er formaður félagsins jafnframt formaður skilanefndar. Fjármunir félagsins skulu renna til umhverfismála og önnur gögn til Þjóðskjalasafns.

VIII. Kafli- Lagabreytingar og gildistaka

21.gr
Lögum þessum er einungis hægt að breyta á aðalfundi með 2/3 hluta atkvæða enda hafi breytingartillögurnar borist stjórn á tilskyldum tíma fyrir aðalfund.

22. gr.
Lög þessi eru sett á stofnfundi félagsins 24. febrúar 2007 og öðlast þegar gildi.

Bráðabirgða ákvæði vegna innleiðingar á lagabreytingu á 2. mgr. 12. gr.
Á fyrsta aðalfundi eftir að þessi lög taka gildi skal kjósa 3 stjórnarmenn og 1 varamann til tveggja ára og 2 stjórnarmenn og 2 varamenn til eins árs. Árið eftir skal kjósa 2 stjórnarmenn og 2 varamenn til tveggja ára og svo framvegis.

——————————————————————
Lög FUMÍ samþykkt á aðalfundi 2020.