Siðareglur Félags umhverfisfræðinga

Tilgangur þessara siðareglna er að skýra þær siðferðilegu hugsjónir, verðmæti og skuldbindingar sem félagsmenn FUMÍ skulu virða í störfum sínum, sem og að treysta hinn siðferðislega grundvöll FUMÍ til að vinna að markmiðum félagsins.

Um störf félagsmanna FUMÍ

1. grein
Félagsmenn FUMÍ skulu í störfum sínum hafa hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi, og taka tillit til þarfa samfélagsins, sem og ábyrgðar mannsins við að vernda umhverfi og náttúru.

2. grein
Félagsmenn FUMÍ skulu leggja sig fram við að beita sérþekkingu sinni með faglegum hætti, og gæta hlutleysis við söfnun, úrvinnslu og túlkun gagna, hvað sem líður persónulegum skoðunum eða hagsmunum.

3. grein
Í þeim tilvikum sem vafi kann að skapast um hæfi félagsmanns FUMÍ við að veita hlutlausa ráðgjöf á sínu sérsviði fyrir tiltekið verkefni, t.d. vegna fjárhagslegra hagsmuna, frændsemi, eða annarra tengsla, skal hann upplýsa um slík atriði og ekki taka að sér viðkomandi verk nema tryggt sé að hann geti sinnt því með fagleg sjónarmið að leiðarljósi.

4. grein
Félagsmenn FUMÍ eru hvattir til þess að auka orðstír félagsins sem og að vinna saman að því auka veg umhverfisfræðinnar sem sérfræðigreinar. Þeir skulu kappkosta að sýna öðrum félagsmönnum virðingu í ræðu, riti og framkomu, og gagnrýna hvorn annan einungis á málefnalegum grunni. Félagsmenn FUMÍ skulu hafa heiðarleika, sanngirni og réttvísi að leiðarljósi í öllum samskiptum.

Um starfsemi FUMÍ

5. grein
Stjórn og félagsmenn FUMÍ skulu gæta að því að viðhafa lýðræðisleg vinnubrögð og hafa vísindalega þekkingu og málefnalega umræðu í forgrunni á fundum félagsins og á öllum opnum fundum og ráðstefnum á vegum félagsins. Sama á við ef félagið sendir inn umsagnir um frumvörp, þingsályktunartillögur, skýrslur um mat á umhverfisáhrifum eða önnur opinber plögg sem félagasamtökum er heimilt að gefa álit sitt á og eru þess eðlis að þau tengjast markmiðum FUMÍ.

6. grein
FUMÍ tekur ekki pólitíska afstöðu í einstökum málum og tengist engum stjórnmálaflokki. Verði umsagnir og fræðsla á vegum félagsins notaðar af öðrum aðilum gegn hagsmunum eða markmiðum félagsins að mati stjórnar félagsins ber stjórn að bregðast við með viðeigandi hætti.

7. grein
FUMÍ er heimilt að afla sér styrkja til reksturs frá opinberum aðilum eða einkaaðilum en fulls gagnsæis skal gætt til að tryggja sjálfstæði félagsins, og koma í veg fyrir hagsmunaárekstra.

8. grein
Taki félagið þátt í ráðstefnum eða viðburðum með fyrirtækjum eða öðrum félögum ber stjórn félagsins að gæta hagsmuna félagsins og hafa markmið þess að leiðarljósi.

9. grein
Stjórn FUMÍ ber að viðhafa trúnað innan stjórnar í þeim málefnum sem hún fjallar um og tengjast einstökum félagsmönnum á einn eða annan hátt. Einnig ber félaginu að gæta jafnréttis milli félagsmanna sinna í öllum störfum sínum.

10. grein
Stjórn FUMÍ ber að viðhafa trúnað innan stjórnar í þeim málefnum sem hún fjallar um og tengjast einstökum félagsmönnum á einn eða annan hátt.

11. grein
Stjórn félagsins ber að gæta jafnréttis milli félagsmanna sinna í öllum störfum sínum.