Hlutverk stjórnar

Á fundi stjórnar FUMÍ þann 24. febrúar 2010 var lagt fyrir og samþykkt hlutverk stjórnar og einstakra stjórnarmanna.

Hlutverk stjórnar Félags umhverfisfræðinga á Íslandi

Hlutverk stjórnar er að sjá til þess að félagið vinni að þeim markmiðum sem greint er frá í lögum þess. Stjórn skal halda gerðarbók utan um störf félagsins sem getur verið á rafrænu formi. Stjórninni er skylt að varðveita bréf sem berast félaginu og önnur gögn er varða félagið eða störf þess, eftir því sem við á. Fyrir aðalfund ár hvert skal stjórnin semja greinilega skýrslu um störf sín og framkvæmdir í félaginu á starfsárinu og birta hana öllum félagsmönnum.

Hlutverk einstakra stjórnarmanna

Hlutverk stjórnar er tilgreint í lögum félagsins. Stjórn tekur sameiginlega ákvarðanir en innan hennar er að jafnaði ákveðin verkaskipting.

Formaður

Formaður er forseti stjórnarinnar. Hlutverk hans er að stýra starfi stjórnar og kalla til stjórnarfunda þegar honum finnst þörf, eða annar stjórnarmaður æskir þess, undirbúa þá og stýra þeim. Hann gætir þess að allir stjórnarmenn ræki skyldur sínar og hefur eftirlit með starfsemi félagsins og að lögum þess og samþykktum sé fylgt.

Ritari

Ritari ber ábyrgð á gerðarbók félagsins. Í hana skal færa fundargerðir stjórnar og félagsfunda, lagabreytingar og aðrar fundargerðir frá hinum ýmsu fundum og öðrum viðburðum félagsins eins og við á. Ritari skrifar fundargerðir stjórnarfunda þar sem skrá skal öll mál sem þar ber á góma, allar tillögur er fram koma, úrslit í hverju máli o.s.frv. Fundargerðir stjórnar skulu bornar undir alla stjórnarmeðlimi til samþykktar (í gegnum tölvupóst) og undirritaðar af ritara. Heimilt er að ganga frá fundargerðum á ritvörðu rafrænu formi. Ritari heldur félagaskrá og birtir félagsmönnum bréf, tilkynningar o.s.frv.

Gjaldkeri

Gjaldkeri hefur eftirlit með fjárreiðum og innheimtu félagsins og bókfærslu eftir nánari fyrirmælum félagslaga og stjórnar ef því er að skipta. Hlutverk hans er að halda utan um fjármál félagsins, þ.m.t. að innheimta félagsgjöld, greiða reikninga og,vinna ársreikninga. Gjaldkeri ber ársreikninga undir skoðunarmenn reikninga til samþykktar fyrir hvern aðalfund.

Meðstjórnendur

Hlutverk meðstjórnenda er að vinna að ýmsum störfum innan stjórnar og fyrir félagið samkvæmt ákvörðunum stjórnar.