TILLÖGUR AÐ LAGABREYTINGUM 2009

Tillögur að lagabreytingum lagðar fyrir aðalfund Félags umhverfisfræðinga á Íslandi 17. október 2009

Tillaga 1

Lögð er fram tillaga að breytingu á 4.gr. sem varðar félagsaðild.

4.gr.
“Félagsmenn geta orðið:

  • Þeir, sem lokið hafa viðurkenndri prófgráðu frá háskóla eða hliðstæðri menntastofnun í umhverfisfræðum eða í skyldum greinum, s.s. í umhverfis- eða auðlindastjórnun.
  • Aðrir fræðimenn á sviði umhverfismála, sem með starfa sínum eða öðru framlagi, styrkja félagið með þátttöku sinni.

Sá sem óskar að gerast félagi skal senda stjórn félagsins skriflega umsókn um inngöngu. Stjórn félagsins metur hvort nám umsækjanda og/eða störf fullnægja þessum skilyrðum og veitir félagsaðild.”

Tillaga að breytingu:

Félagsmenn geta orðið:

  • Þeir, sem lokið hafa viðurkenndri prófgráðu frá háskóla eða hliðstæðri menntastofnun í umhverfisfræðum eða í skyldum greinum, s.s. í umhverfis- eða auðlindastjórnun.
  • Þeir sem lokið hafa a.m.k. BA, BS eða samsvarandi gráðu úr háskóla í annarri fræðigrein og að auki sem samsvarar 60 einingum (ECTS) á sviði þverfaglegra umhverfisfræða að mati námsnefndar.

Sá sem óskar að gerast félagi skal senda stjórn félagsins skriflega umsókn um inngöngu. Námsnefnd leggur mat á hvort nám umsækjanda fullnægir skilyrðum og sendir stjórn skriflegt álit sitt. Stjórn tekur endanlega ákvörðun um hvort félagsaðild er veitt.
Námsnefnd endurskoðar reglulega verklagsreglur um menntunarkröfur sem gerðar eru til nýrra félagsmanna og tekur þá mið af lögum félagsins á hverjum tíma og kröfunni um þverfaglega menntun umsækjenda á sviði umhverfisfræða. Námsnefnd er skipuð þremur félagsmönnum til þriggja ára í senn og eru þeir kosnir á aðalfundi.

Greinargerð:
Félag umhverfisfræðinga á Íslandi (FUMÍ) er hvorki kjara- né stéttarfélag. Aðild að félaginu er ekki bundin ákveðnum starfsstéttum á vinnustöðum og byggist að miklu leyti á sameiginlegum fræðilegum/faglegum grunni. Atvinna við „umhverfisfræði“ er ekki viðmið í sjálfu sér í tilviki FUMÍ. FUMÍ eru ekki áhugasamtök og aðild er ekki opin öllum sem hafa áhuga á umhverfinu eða náttúrufræðum af einhverju tagi. Aðild er því háð öðrum skilyrðum en áhuga. Það sem sameinar félagana og mótar markmið félagsins er þar með fræðilegur og faglegur bakgrunnur félagsmanna. Aðild að félaginu þarf að taka mið af þessu. Þetta þarf ekki að útiloka aðild fólks með mikla reynslu en það þarf þá að nálgast inntöku þeirra á grunni þekkingar þeirra en ekki atvinnu eða áhuga á hverjum tíma. Þess vegna er hér lagt til að aðild að FUMÍ sé einvörðungu opin þeim sem hafa lokið grunnháskólamenntun og að lágmarki sem samsvarar einum þriðja grunnnnáms á háskólastigi á sviði þverfaglegra umhverfisfræða. Þannig verði tryggt að faglegur grunnur allra félagsmanna sé þverfaglegur og taki til helstu sviða sem umhverfisfræðin spannar.

Einnig er lagt til að stofnuð verði s.k. námsnefnd sem hafi það hlutverk að fjalla um umsóknir um félagsaðild og gera tillögu um hvort þeim sé hafnað eða synjað. Stjórn tekur síðan um það ákvörðun. Námsnefnd skal líka endurskoða reglulega verklagsreglur um inntöku nýrra félagsmanna og taka þá mið af lögum félagsins á hverjum tíma og kröfunni um þverfaglega menntun umsækjenda í umhverfisfræðum. Námsnefnd getur haft náið samráð við háskóla hér á landi sem bjóða upp á nám á sviði umhverfisfræða og komið sjónarmiðum félagsins á framfæri. Gert er ráð fyrir að námsnefnd sé kjörin á aðalfundi.

ORÐANEFND FUMÍ

Orðanefnd FUMÍ vinnur að íðorðasafni á sviði umhverfismála í samastarfi við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Hér er að finna lista yfir ýmis umhverfisorð og skilgreiningar á þeim. https://sites.google.com/site/umhverfisordh/

Tillögur að orðum sendist á umhverfisfraedingar@gmail.com