SKÝRSLA STJÓRNAR FUMÍ 2010

Inngangur

Félag umhverfisfræðinga á Íslandi hefur verið starfrækt í rúm þrjú og hálft ár. Verkefni félagsins hafa í grundvallaratriðum snúist um þrennt: a) að efla innra starf, sérstaklega tengslamyndum meðal félagsmanna, b) að stuðla að fræðslu og umræðu um umhverfismál í þjóðfélaginu með málþingum og fyrirlestrum, og c) að koma á framfæri athugasemdum við þingmál og taka þátt í almennri þjóðfélagsumræðu um umhverfismál.

Fjöldi félagsmanna var 94 í lok september 2010, þar af 12 nemar með aukaaðild að félaginu.

Stjórn félagsins

Á aðalfundi félagsins 17. október 2009 var kosin stjórn þess til eins árs. Guðmundur Ingi Guðbrandsson var kjörinn formaður félagsins og aðrir í stjórn þess voru kjörin: Bergþóra Hlíðkvist Skúladóttir, Björn H. Barkarson, Eygerður Margrétardóttir og Sigríður Droplaug Jónsdóttir. Eygerður gengdi starfi gjaldkera og staðgengils formanns. Björn gengdi starfi ritara félagsins. Í varastjórn sátu: Guðmundur Hörður Guðmundsson, Hulda Steingrímsdóttir og Ólafur Ögmundarson.

Stjórn félagsins hélt að jafnaði fundi mánaðarlega, nema yfir hásumartímann, alls 7 fundi. Varamenn átt kost á að sitja alla stjórnarfundi og tóku þeir virkan þátt í starfi stjórnar.

Fjármál félagsins

Félag umhverfisfræðinga á Íslandi stendur vel fjárhagslega. Þrjúhundruðþúsund króna styrkur fékkst á fjárlögum ríkisins 2010. Umhverfisfræðsluráð samþykkti styrkumsókn félagsins upp á 400 þúsund til að vinna að gerð íðorðasafns í umhverfisfræðum. Upphæð félagsgjalda var samþykkt á aðalfundi 2009 og var óbreytt frá fyrra ári, 3.000,- krónur. Innheimta félagsgjalda hefur gengið nokkuð vel, en þó eru útistandandi kröfur frá fyrri árum hátt í um 60 þúsund krónur.

Eigið fé í lok fjárhagsárs 2009-2010 (31. ágúst 2010) var um 1685 þúsund krónur. Ársreikningum fyrir nýliðið starfsár verða gerð sérstök skil á aðalfundi 2010. Endurskoðendur reikninga voru Páll Stefánsson og Ragnhildur Helga Jónsdóttir.

Starfsemi félagsins á starfsárinu

Nefndir og vinnuhópar

Þrjár nefndir eða vinnuhópar störfuðu á vegum félagsins á starfsárinu.

Lagabreytinganefnd. Í lagabreytinganefnd voru kjörin á aðalfundi 2009 Jóna Bjarnadóttir og Páll Stefánsson. Stjórn félagsins tilnefndi Björn Helga Barkarson í nefndina. Verkefni nefndarinnar voru að yfirfara lög félagsins og koma með tillögur að lagabreytingum til að leggja fyrir aðalfund 2010.

Vinnuhópur um íðorðasafn. Þessi vinnuhópur var skipaður um mitt starfsár og hefur hisst nokkrum sinnum til að ræða gerð íðorðasafns í umhverfisfræðum. Hópnum hafa stýrt Bergþóra Hlíðkvist Skúladóttir og Hulda Steingrímsdóttir, en Birna Helgadóttir, Ingibjörg Elsa Björnsdóttir og Stefán Gíslason eru einnig í hópnum. Sá síðastnefndi hefur tekið að sér að halda utan um áframhaldandi vinnu hópsins sem hefst af fullum krafti í haust. Gerð íðorðasafns er í samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar við Háskóla Íslands.

Vinnuhópur um umhverfisspor. Þessi vinnuhópur var skipaður vorið 2010 og hefur það að markmiði að gefa félagsmönnum kost á að minnka vistspor sitt í sameiginlegu átaki. Þetta verður betur kynnt á aðalfundi félagsins 2010. Hópnum stýrir Eygerður Margrétardóttir en aðrir í honum eru Sigurður Eyberg Jóhannesson og Ólafur Ögmundarson.

Atburðir á vegum félagsins á starfsárinu

Félag umhverfisfræðinga á Íslandi stóð fyrir fjölda atburða á starfsárinu, eitt síns liðs eða í samstarfi við aðra aðila.

Félagsmenn áttu kost á að hittast nokkrum sinnum í hádegisverði, jólaglögg var haldið í Reykjavík í desember og haustfagnaður var haldin að aðalfundi loknum. Sú nýbreytni var viðhöfð á starfsárinu að bjóða nýbrautskráðum nemendum úr umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands að kynna lokaverkefni sín fyrir félagsmönnum. Þetta voru helstu viðburðir er lutu að innra starfi félagsins. Það má fullyrða að allir þessir viðburðir hafi styrkt kunningsskap og tengslamyndun félagsmanna.

Nokkrir viðburðir á vegum félagsins voru opnir almenningi, eða þrengri hópum, og ætlaðir til fræðslu og þekkingarsköpunar í umhverfismálum. Félagið hélt málþing um vistvænni ferðamáta í samstarfi við Reykjavíkurborg í september 2009, ráðstefnu um neyslu- og úrgangsmál í Reykjavík í nóvember í samstarfi við FENÚR, Fagráð um endurnýtingu og úrgang, og málþing á Ísafirði um sorpmál minni sveitarfélaga í apríl 2010. Þá var haldinn fundur um möguleika og aðgerðir í loftslagsmálum á Íslandi rétt fyrir ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem haldin var í Kaupmannahöfn í desember 2009. Á Degi umhverfisins 2010 stóð félagið í samstarfi við fleiri aðila fyrir leiðsögn um lífbreytileika í Vatnsmýrinni, með áherslu á fuglalíf. Á þessum málþingum og fundum töluðu sérfræðingar innan sem utan félagsins og voru þau flest vel sótt.

Endurmenntun félagsmanna

Formlegt samstarf við Endurmenntun Háskóla Íslands gerði félagsmönnum kleift að sækja tvö sérhæfð námskeið á góðum kjörum, eitt um visthagfræði og annað um vistferilsgreiningu, hvoru tveggja kennt við umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands. Auk þessa hefur félagið notið afsláttar af völdum námskeiðum hjá Endurmenntun.

Kynning á félaginu

Stjórn félagsins hefur kappkostað að koma félaginu á framfæri við formleg sem og óformleg tækifæri. Atburðir á vegum félagsins hafa verið auglýstir mjög vel á fréttastofum, netmiðlum og í gegnum tölvupóst. Sá háttur hefur verið hafður á að þegar félagið stendur fyrir atburðum, þá flytur einhver stjórnarmeðlimur stutt ávarp þar sem m.a. er vakin athygli á markmiðum og starfsemi félagsins. Þá var formaður félagsins fenginn til að flytja erindi á nokkrum ráðstefnum á starfsárinu: á Umhverfisþingi 2009, 40 ára afmæli Landverndar í október og á ráðstefnu um umhverfisvottaða Vestfirði í apríl síðastliðnum. Allt voru þetta viðburðir þar sem félaginu var komið á framfæri.

Heimasíða félagsins

Sigríður Droplaug Jónsdóttir stjórnarkona í FUMÍ hefur ritstýrt heimasíðu félagsins. Í ritstjórn sitja með Sigríði, Eygerður Margrétardóttir og Guðmundur Hörður Guðmundsson. Heimasíðan hefur tekið á sig góða mynd og þjónar fyrst og fremst félagsmönnum í gegnum fréttir af störfum félagsins og viðburðum á þess vegum.

Samstarf við aðra aðila

Á starfsárinu átti FUMÍ samstarf við ýmsa aðila eins og fram kemur hér að framan. Á aðalfundi félagsins 2009 var stjórn þess falið að taka ákvörðun um aðild að regnhlífarsamtökum umhverfisfræðinga í Evrópu. Stjórn ákvað að sækja um inngöngu í þau samtök.

Annað

Á starfsárinu tók stjórn félagsins til umfjöllunar og gaf álit á niðurstöðu Rammaáætlunar.

Upplýsingamiðlun og tjáskipti milli stjórnar og félagsmanna hafa aðallega farið fram með fréttabréfum, um tölvupóst, á heimasíðu félagsins og á viðburðum á vegum þess.

Lokaorð

Félag umhverfisfræðinga á Íslandi vinnur að tveimur meginmarkmiðum. Annarsvegar aukinni fræðslu og vitund fólks um umhverfismál og hins vegar að stuðla að tengslamyndun og samkennd meðal félagsmanna sinna.

Á þeim rúmu þremur árum sem liðin eru frá stofnun félagsins hefur tekist að byggja upp gott tengslanet félagsmanna. Það er ljóst að slíkt net hefur vissulega nýst betur þeim sem búa á höfuðborgarsvæðinu, en stjórn félagsins hefur þó reynt að halda a.m.k. einn viðburð á landsbyggðinni á ári. Þá gefst félagsmönnum tækifæri á að hitta fulltrúa stjórnar og ráða ráðum um starfsemi félagsins. Það er mat stjórnar að félaginu hafi tekist að skapa sér nokkuð sterkan sess í umræðu um umhverfismál á Íslandi, sem byggir ekki síst á faglegri nálgun viðfangsefna. Þetta má greina af viðbrögðum fólks við viðburðum á vegum félagsins og síauknum fjölda aðila sem óska eftir samstarfi við félagið.

Stjórn Félags umhverfisfræðinga þakkar félagsmönnum kærlega fyrir ánægjuleg samskipti á liðnu starfsári. Sérstakar þakkir eru færðar öllum þeim sem lögðu á sig vinnu við að styrkja starf félagsins og taka þátt í viðburðum á vegum þess. Megi félagið okkar blómstra á komandi árum.

f.h Stjórnar FUMÍ

Guðmundur Ingi Guðbrandsson

ORÐANEFND FUMÍ

Orðanefnd FUMÍ vinnur að íðorðasafni á sviði umhverfismála í samastarfi við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Hér er að finna lista yfir ýmis umhverfisorð og skilgreiningar á þeim. https://sites.google.com/site/umhverfisordh/

Tillögur að orðum sendist á umhverfisfraedingar@gmail.com