FUNDARGERÐ AÐALFUNDAR FUMÍ 2010

Fundargerð aðalfundar Félags umhverfisfræðinga á Íslandi 25. september 2010

1. Fundarsetning og kosning starfsmanna

Formaður, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, setti fundinn og bauð félagsmenn velkomna á fjórða aðalfund félagsins. Hann þakkaði fyrir gott samstarf á umliðnum árum, sagði að það hefði verið lærdómsríkt að fylgja félaginu fyrstu sporin og tilkynnti að hann gæfi ekki kost á sér til endurkjörs. Guðmundur Ingi gerði að sérstöku umtalsefni mikilvægi þess að umhverfisfræðingar kæmu að vinnu vegna innleiðingu á menntun til sjálfbærni, en hún er orðin ein af fimm grunnstoðum í námskrá, og bað fundarmenn um að íhuga hvort félagið ætti að beita sér á þessum vettvangi.
Guðmundur Ingi bar upp tillögu um að Auður Ingólfsdóttir yrði fundarstjóri og María J. Gunnarsdóttir fundarritari og var það samþykkt. Guðmundur afhenti fundarstjórnina yfir til Auðar. Fundarmenn voru sautján talsins.

2. Skýrsla stjórnar

Formaður greindi frá starfi félagsins og lagði fram skýrslu stjórnar. Í stjórn félagsins hafa setið; Guðmundur Ingi Guðbrandsson formaður, Eygerður Margrétardóttir gjaldkeri og staðgengill formanns, Björn H. Barkarson ritari, Bergþóra Hlíðkvist Skúladóttir og Sigríður Droplaug Jónsdóttir. Í varastjórn sátu Guðmundur Hörður Guðmundsson, Hulda Steingrímsdóttir og Ólafur Ögmundarson. Stjórnin hélt 7 stjórnarfundi. Varamenn áttu kost á að sitja alla fundi og tóku þeir virkan þátt í starfi stjórnar. Fjöldi félagsmanna í septemberlok 2010 er 94 og þar af eru 12 nemendur með aukaaðild að félaginu. Formaður fór yfir helstu verkefni félagsins á starfsárinu. Þrjár nefndir /vinnuhópar hafa starfað á árinu. Lagabreytinganefnd, vinnuhópur um íðorðasafn og vinnuhópur um umhverfisspor. Lagabreytinganefnd var kjörin var á aðalfundi 2009 og í henni hafa átt sæti Páll Stefánsson, Jóna Bjarnadóttir og Björn H. Barkarson fyrir hönd stjórnar. Verkefni nefndarinnar var að yfirfara lög félagsins og koma með breytingatillögur ef þurfa þykir. Engar slíkar breytingartillögur komu fram að þessu sinni. Gerð var grein fyrir starfi vinnuhópanna undir sérstökum lið á dagskrá. Félagið stóð fyrir mörgum viðburðum á árinu bæði eitt síns liðs og í samstarfi við aðra, s.s. ráðstefnum og málþingum um umhverfismál. Einnig var formaður fenginn til að flytja erindi á nokkrum ráðstefnum á starfsárinu. Heimasíða félagsins www.umhverf.is hefur verið mjög virk og er félagsmönnum bent á þann vettvang. Líflegt innra starf var í félaginu s.s. hádegisfundir, jólaglögg og haustfagnaður. Á síðasta aðalfundi var stjórn falið að taka ákvörðun um hvort sótt skyldi um aðild að regnhlífarsamtökum umhverfisfræðinga í Evrópu. Formaður upplýsti að ákvörðun hefði verið tekin um að sækja eftir aðild, og málið væri á lokastigi.

Formaður þakkaði ánægjulegt samstarf fyrir hönd stjórnar. Skýrsla stjórnar verður birt á heimasíðu félagsins.

Umræður um skýrslu stjórnar: Rætt um að fjölga hádegisfundum þar sem þeir hefðu heppnast ve l. Rætt um aðild að Evrópusamtökunum og spurt um kostnað. Aðild er ekki kostnaðarsöm en fer eftir félagafjölda.

3. Ársreikningar

Eygerður Margrétardóttir gjaldkeri lagði fram reikninga félagsins. Fjárhagur félagsins er góður. Tekjur á árinu voru 552.000 kr og gjöld alls voru 341.183 kr. Eigið fé og skuldir eru 1.684.112 kr. Samkvæmt lögum félagsins ber að taka félagsmenn af félagatali og vísa þeim úr félaginu hafi þeir ekki greitt félagsgjöld í tvö ár, að undangenginni viðvörun. Á starfsárinu þurfti að vísa nokkrum félagsmönnum úr félaginu af þessum sökum. Ógreidd félagsgjöld þeirra voru afskrifuð um leið og félagsaðild og voru 27 þús.kr afskrifaðar á þessu ári. Skoðunarmennirnir Páll Stefánsson og Ragnhildur Jónsdóttir höfðu yfirfarið reikninga og samþykkt.

Umræður um ársreikninga: Ábending kom fram um að góð regla væri að gera ráð fyrir undirskrift gjaldkera og skoðunarmanna á ársreikning.

Ársreikningarnir voru bornir upp og samþykktir samhljóða.

4. Tillaga að félags gjöldum

Tillaga stjórnar um félagsgjöld fyrir starfsárið 2010-2011 eru óbreytt gjöld að upphæð
3.000 kr. Tillagan var samþykkt. Samkvæmt lögum félagsins greiða félagsmenn sem hafa aukaaðild ekki félagsgjöld.

5. Íðorðasafn í umhverfisfræðum

Bergþóra H. Skúladóttir kynnti verkefnið. Verkefnið er unnið í samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar og er það komið nokkuð á rekspöl. Starfshópinn skipa: Stefán Gíslason, Bergþóra H. Skúladóttir, Birna Helgadóttir og Ingibjörg Elsa Björnsdóttir og Hulda Steingrímsdóttir. Ágústa Þorbergsdóttir hjá Stofnun Árna Magnússonar starfar einnig með hópnum. Sótt var um styrk til Umhverfisfræðsluráðs og voru veittar 400 þús.kr. Fyrsta áfanga verður lokið 1. mars 2011. Afurð verkefnisins verður sett inn á vef orðabókar Háskóla Íslands.

Umræður um Íðorðasafn: Bent var á að hópurinn skyldi kynna sér vel vinnu annarra við orðasmíð á sviði umhverfismála s.s. eins og Orðanefndar verkfræðinga.

6. Fyrirmyndir í umhverfismálum: Vistspor

Vorið 2010 ákvað stjórn FUMÍ að skipa vinnuhóp um umhverfisspor. Í hópnum hafa setið Eygerður Margrétardóttir, Sigurður Eyberg Jóhannesson og Ólafur Ögmundarson. Eygerður sagði frá þeirri vinnu sem þegar hafði farið fram í hópnum. Markmið verkefnisins hafði verið skilgreint af vinnuhópnum og er þríþætt, í fyrsta lagi að gefa þátttakendum hugmynd um stærð eigin umhverfisspors, í öðru lagi að hvetja þátttakendur til umhugsunar um hvernig hægt sé að minnka sporið og síðast en ekki síst að hvetja til umhugsunar og umræðu um vistvænni neysluhætti á Íslandi. Hugmyndir vinnuhópsins ganga út á að bjóða félagsmönnum FUMÍ að taka þátt í að mæla vistspor sitt í tvo mánuði. Í fyrri mánuðinum verði tekin núllastaða og í þeim seinni muni þátttakendur síðan nýta sér niðurstöður fyrri mánaðar til að minnka sporið. Matið á vistsporinu yrði byggt á matsaðferðum Wackernagel og félaga. Eygerður sagði að mikilvægt væri að samhliða mælingunum yrði opnað fyrir umræðu um vistvænni neysluhætti með kynningu og fræðslu, með átakinu skapaðist tækifæri til að hvetja aðra að skoða lífsstíl sinn með því að þátttakendur deili reynslu sinni.

Umræður um vistspor: Ábending kom fram um að ef til vill mætti skoða hvort ekki væri hægt að móta reiknilíkan sem væri betur í takt við íslenskar aðstæður því þörf væri á því. Mikilvægt væri að auðvelda samanburð og sjá hverju er hægt að breyta. Bent á reiknivél Sigurðar hjá Orkusetri á Akureyri. Rætt var um að það yrði á höndum nýrrar stjórnar að taka ákvörðun um nánari útfærslu verkefnisins.

7. Umhverfis- og náttúruverndarákvæði í stjórnarskrá?

Guðmundur Hörður Guðmundsson kynnti hugleiðingar stjórnar um væntanlegt stjórnlagaþing og hvort félagið eigi að koma á framfæri sjónarmiðum umhverfismála til umfjöllunar á þingið. Stjórnlagaþing á að starfa í tvo mánuði frá 15. febrúar til 15. apríl. Sjötta og sjöunda nóvember fer fram sérstakur þjóðfundur um stjórnarskrá lýðveldisins en fulltrúar til þjóðfundar eru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Sá fundur á að skila tillögum til stjórnlagaþings. Kosið er til stjórnlagaþings og fer sú kosning fram 27. nóvember en framboðsfrestur rennur út 18. október. Í lögum um stjórnlagaþing eru tilteknir átta þættir sem á að fjalla um og er umhverfismál og eignarhald og nýting náttúruauðlinda einn þátturinn. Spurningin er hvort félagið eigi að taka virkan þátt í þeirri umræðu sem á eftir að skapast um umhverfismálin og leggja áherslu á að umhverfismál séu hluti af stjórnarskrá. Þátttaka félagsins gæti bæði verið um umhverfismálin beint og einnig um annan þátt sem er lýðræðislega þátttöku almennings í ákvarðanatöku. Krafan um umhverfisverndar­ákvæði í stjórnarskrá hefur komið frá umhverfisverndarhreyfingum s.s. Landvernd sem ályktaði á aðalfundi árið 2004 með tilmælum til stjórnvalda við þáverandi endurskoðun stjórnarskrár að setja inn ákvæði um umhverfisvernd. Fræðimenn eins og Aðalheiður Jóhannsdóttir við Lagadeild Háskóla Íslands hafa einnig fjallað um nauðsyn þess að setja slíkt ákvæði inn í stjórnarskrá. Aðalheiður hefur bent á að ákvæði um umhverfisvernd sé í norsku stjórnarskránni og það hafi orðið til þess að meiri kröfur séu gerðar til undirbúnings og rökstuðnings ákvarðana sem hafa í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfið.

Guðmundur Hörður lagði fram fimm spurningar fyrir fundinn:
1. Á félagið að móta sér afstöðu til málsins í aðdraganda stjórnlagaþings?
2. Vill félagið reyna að hafa áhrif á störf þingsins?
3. Á félagið að reyna að hafa áhrif á fulltrúa á stjórnlagaþingi?
4. Á félagið að hvetja umhverfissinnað fólk að bjóða sig fram?
5. Á félagið að standa eitt að þessu eða á það að hafa frumkvæði að því að stofna sérstakan vettvang áhugafólk um umhverfisvernd með það að markmiði að koma umhverfisverndarákvæði í stjórnarskrána?

Þar sem lítill tími er til stefnu þarf að ganga rösklega til verks.

Umræður um þennan lið: Rætt var um mikilvægi þess að umhverfismálin verði hluti af stjórnarskrá. Bent var á að það væri mikilvægt að gæta fagmennsku og fara ekki inn í hringiðju pólitíkur. Lagðar voru fram tvær tillögur. Fyrri tillagan var um að senda ályktun frá aðalfundi FUMÍ um að hvetja almenning til að velja fulltrúa sem hafa umhverfismál á stefnuskrá sinni og þingfulltrúa á stjórnlagaþings til að vinna að þessum málum og var hún lögð fram af Birni Guðbrandi Jónssyni og Guðmundi Herði Guðmundssyni. Seinni tillagan var um að stofna vinnuhóp til að vinna að því að koma umhverfismálum á dagskrá stjórnlagaþings og var hún lögð fram af Guðmundi Inga Guðbrandssyni fráfarandi formanni. Þessar tillögur voru ræddar og flutningsmönnum falið að koma saman skriflegum tillögum í kaffihlé. Síðan kom fram breytingatillaga á fyrri tillögunni um að fella út seinni liðinn og beina ályktuninni einungis til almennings og var hún lögð fram af Páli Stefánssyni. Síðar væri hægt að beina athyglinni að þingfulltrúum stjórnlagaþings.

Fyrst var breytingartillagan borin upp og var hún samþykkt með meirihluta. Og síðan var ályktun aðalfundar borin upp og samþykkt. Ný stjórn mun sjá um að koma henni á framfæri. Hún er svohljóðandi:

Aðalfundur Félags umhverfisfræðinga á Íslandi hvetur til þess að í nýrri stjórnarskrá íslenska lýðveldisins verði fjallað sérstaklega um umhverfismál. Jafnframt hvetur fundurinn almenning til að horfa til frambjóðenda til stjórnlagaþings sem hafa umhverfismál á stefnuskrá sinni.

Næst var tillagan um stofnun vinnuhóps borin upp og samþykkt. Hún er svohljóðandi:

Aðalfundur FUMÍ 2010 ákveður að skipa vinnuhóp til að starfa að því að setja umhverfis- og náttúruverndarákvæði í stjórnarskrá. Vinnuhópurinn skal starfa í samráði við stjórn og hlutverk hans er að:

    1. Hafa frumkvæði að samvinnu einstaklinga og félagasamtaka um þetta mál. 2. Vinna að því að koma umhverfis – og náttúruverndarákvæði inn í stjórnarskrá.

Vinnuhópurinn skal starfa með fagleg viðmið að leiðarljósi.

Þrír félagar voru kosnir til að starfa í hópnum og þau eru: Guðmundur Hörður Guðmundsson, sem jafnframt er tengiliður við stjórn, Björn Guðbrandur Jónsson og María J. Gunnarsdóttir.

8. Kosning stjórnar, varamanna og skoðunarmanna reikninga

Núverandi formaður gefur ekki kost á sér til áframhaldandi setu. Formann á að kjósa sérstaklega og var auglýst eftir framboði. Það kom ekki fram. Fundarstjóri lagði til að vikið yrði frá lögum félagsins og stjórnin yrði kosin og hún myndi síðan sjálf skipta með sér verkum. Það var samþykkt af fundarmönnum. Í stjórn voru kosin Eygerður Margrétardóttir (var í stjórn), Guðmundur Hörður Guðmundsson (var í varastjórn), Dagný Arnarsdóttir, Aðalbjörg Birna Guttormsdóttir og Jón Örvar G. Jónsson. Í varastjórn voru skipuð Hulda Steingrímsdóttir, ÓlafurÖgmundarson og Helga Rakel Guðrúnardóttir. Skoðunarmenn Páll Stefánsson og Ragnhildur Helga Jónsdóttir voru endurkjörin. Eygerði var falið að kalla saman fyrsta fund nýrrar stjórnar.

9.Önnur mál Kosin var 3 manna námsnefnd sem hefur það hlutverk að móta viðmið við inntöku nýrra félagsmanna sem ekki hafa grunn-eða framhaldsmenntun úr háskóla á sviði umhverfisfræði eða umhverfis- og auðlindafræði. Námsnefnd er, samkvæmt lögum félagsins, ætlað að gefa stjórn skriflegt álit á slíkum umsóknum um félagsaðild. Námsnefnd skipa nú Sunneva Jasmin Bernharðsdóttir, Guðmundur Ingi Guðbrandsson og Birna Helgadóttir. Einnig var Lagabreytinganefnd endurkjörin þar sem eiga sæti Jóna Bjarnadóttir og Páll Stefánsson. Stjórn mun jafnframt skipa fulltrúa í þá nefnd.

10. Fundarslit og erindi

Fundi slitið kl. 18.00 og þá tók við erindi Dr. Jon D. Ericson prófessors í visthagfræði við Vermont háskóla í Bandaríkjunum. Erindi hans fjallaði um hugmyndafræði visthagfræði og GPI vísa (genuine progress indicator) fyrir Ísland.

Fundarritari: María J. Gunnarsdóttir

ORÐANEFND FUMÍ

Orðanefnd FUMÍ vinnur að íðorðasafni á sviði umhverfismála í samastarfi við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Hér er að finna lista yfir ýmis umhverfisorð og skilgreiningar á þeim. https://sites.google.com/site/umhverfisordh/

Tillögur að orðum sendist á umhverfisfraedingar@gmail.com