FUNDARGERÐ AÐALFUNDAR FUMÍ 2009

Fundargerð aðalfundar Félags umhverfisfræðinga á Íslandi 17. október 2009

Guðmundur Ingi Guðbrandsson formaður Félags umhverfisfræðinga á Íslandi setti fundinn og stakk upp á Auði H. Ingólfsdóttur sem fundarstjóra og Ingimundi Stefánssyni sem fundarritara. Var það samþykkt.

1. Formaður flutti skýrslu stjórnar, sem var í stuttu máli eftirfarandi:

  a. Félagsmenn voru 91 í byrjun október 2009, 14 nemar hafa aukaaðild.
  b. Fjárhagsstaða er góð, og ríkisstyrkur fékkst. Rætt hefur verið um að breikka tekjugrunn. Launþegar félagsins voru Dagný Arnarsdóttir og Anna Sigurveig Ragnarsdóttir sem aðstoðuðu m.a. á málþingum.
  c. 5 nefndir unnu innan félagsins og tóku bæði stjórnarmenn og almennir félagsmenn þátt í nefndarvinnu.
  d. Félagið vann að fjölda atburða á árinu, m.a. málþinginu Sjálfbærni á tímamótum. Minnt var á morgunverðarfund m. fulltrúum 25 fyrirtækja um vistvæn innkaup, Finnur Sveinsson fræddi viðkomandi.
  e. Innra starf félagsins var nokkuð, m.a.hádegishittingar, og Íris Bjargmundsdóttir ræddi um umhverfislöggjöf og Evrópusambandið.
  f. Jólafundur
  g. Endurmenntun: félagið gerði tímamótasamning við EHÍ um endurmenntun umhverfisfræðinga. Haldið var námskeið í visthagfræði sem þrír félagsmenn nýttu sér en nemendur á námskeiðinu voru alls um 23.
  h. Heimasíðu félagsins (www.umhverf.is) heldur Sigríður Droplaug Jónsdóttir utanum, og hefur endurbætt. Þar mun pistlaritun hefjast í haust.
  i. Alþingi hefur leitað til félagsins og óskað umsagna um þingmál. Félagið hefur gefið umsögn um sex mál.
  j. Formaður flutti erindi á Umhverfisþingi.
  k. Björn Barkar er ritfulltrúi í Landbréfinu, ritrýndu tímaríti F Félags landfræðinga.
  l. Erlent samstarf er á döfinni.
  m. Framundan er fjöldi atburða, s.s.
  • Ráðstefna Fenúr
  • Samdráttur í losun ghl
  • Haustferð
  • Jólafundur
  • Ráðstefna FUMÍ í mars/apríl
  • Samstarf við Bandaríska sendiráðið
  n. Félagið hefur unnið í samræmi við þau tvö meginmarkmið sín að efla tengslamyndun félagsmanna og standa að fræðslu um umhverfismál í samfélaginu.

2. Ársreikningur, gjaldkeri FUMÍ Eygerður Margrétardóttir gerði grein fyrir.

  a. Félagsgjöld voru 267.000 en ofinnheimt voru 45.000 kr með fullum greiðslum aukafélaga.
  b. Styrkur úr ríkissjóði nam 800000 kr
  c. Gjöld voru alls 540144 kr, hagnaður ársins var 552895 kr.
  d. Efnahagsreiknur: Eigið fé og skuldir alls: 1348824 kr.
  e. Ragnhildur Helga Jónsdóttir og Páll Stefánsson endurskoðuðu, og töldu reikninginn réttan.

  Umræður um skýrslu formanns og ársreikning:
  • Kostnaður við starfsmenn er ekki sérliður, heldur var vinna þeirra felld inn í hvern lið sem þeir unnu við, áætlaður kostnaður 70-100 þús. Kr. Hluti greiðslna verður inntur af hendi á næsta ári.
  • Hvaða mál hefur Alþingi leitað með: M.a. þingsályktunartillögur og tillögur að lagafrumvörpum, s.s. tillögu Sjálfstæðismanna og Frammsóknarmanna um stefnu Íslands í loftslagsmálum, erfðabreytt matvæli, F-gös, stjórnlagaþingið. Eingöngu var veitt umsögn um þá hluta frumvarpa sem stjórn taldi snerta viðfangsefni félagins. Hingað til hafa umsagnir verið unnar innan stjórnar sökum lítils fyrirvara, en formaður telur rétt að leita til annarra félagsmanna sem sérþekkingu hafa þegar fyrirvarar eru lengri eða meiri en 1 vika.
  • Almennur félagi hrósaði félagi og stjórn fyrir afköst og mikla vinnu, og fyrir góða stöðu félagssjóðs.
  • Ársreikningur var borinn upp undir fundargesti og var hann samþykktur einróma.

3. Lagabreytingatillögur, Björn Barkarson í lagabreytingarnefnd kynnti tillögur. Greinargerð sem dreift var með tillögunni fyrir fund var lesin upp. Til að lagabreytingar gangi í gegn þarf a.m.k. helmingur félagsmanna að vera mættur til fundar en alls voru 20 mættir af 77 félagsmönnum með fulla aðild að félaginu og því ljóst að breytingarnar yrðu ekki samþykktar á þessum fundi. Ákveðið var að taka þær engu að síður til umfjöllunar á fundinum.

  a. Borin var upp tillaga að breytingu á 4. gr. laga sem varðar félagsaðild. Umræður hafa verið innan félagsins um ofangreint, en framhaldsaðalfundur í vor samþykkti að settar yrðu fram tillögur á aðalfundi. Sérstakri nefnd var falið það hlutverk og var hún skipuð þeim Birni Barkarsyni, Óla Halldórssyni, Helgu Rakel Guðrúnardóttur og Grétu Hlín Sveinsdóttur. Tilögur nefndarinnar voru síðan útfærðar af stjórn félagsins og nefndinni.

  4.gr. laganna hljómar svo:
  “Félagsmenn geta orðið:
  • Þeir, sem lokið hafa viðurkenndri prófgráðu frá háskóla eða hliðstæðri menntastofnun í umhverfisfræðum eða í skyldum greinum, s.s. í umhverfis- eða auðlindastjórnun.
  • Aðrir fræðimenn á sviði umhverfismála, sem með starfa sínum eða öðru framlagi, styrkja félagið með þátttöku sinni.
  Sá sem óskar að gerast félagi skal senda stjórn félagsins skriflega umsókn um inngöngu. Stjórn félagsins metur hvort nám umsækjanda og/eða störf fullnægja þessum skilyrðum og veitir félagsaðild.”

  Tillaga að breytingu (undirstrikuð):
  Félagsmenn geta orðið:
  • Þeir, sem lokið hafa viðurkenndri prófgráðu frá háskóla eða hliðstæðri menntastofnun í umhverfisfræðum eða í skyldum greinum, s.s. í umhverfis- eða auðlindastjórnun.
  • Þeir sem lokið hafa a.m.k. BA, BS eða samsvarandi gráðu úr háskóla í annarri fræðigrein og að auki sem samsvarar 60 einingum (ECTS) á sviði þverfaglegra umhverfisfræða að mati námsnefndar.
  Sá sem óskar að gerast félagi skal senda stjórn félagsins skriflega umsókn um inngöngu. Námsnefnd leggur mat á hvort nám umsækjanda fullnægir skilyrðum og sendir stjórn skriflegt álit sitt. Stjórn tekur endanlega ákvörðun um hvort félagsaðild er veitt.
  Námsnefnd endurskoðar reglulega verklagsreglur um menntunarkröfur sem gerðar eru til nýrra félagsmanna og tekur þá mið af lögum félagsins á hverjum tíma og kröfunni um þverfaglega menntun umsækjenda á sviði umhverfisfræða. Námsnefnd er skipuð þremur félagsmönnum til þriggja ára í senn og eru þeir kosnir á aðalfundi.

  b. Borin var upp tillaga að breytingu um markmið félagsins í 2. gr. laganna.
  2.gr. laganna hljómar svo:
  Markmið félagsins eru að;
  • efla faglega og vísindalega þekkingu félagsmanna,
  • stuðla að umræðu og fræðslu um umhverfismál,
  • stuðla að innlendu og alþjóðlegu samstarfi um umhverfismál,
  • auka þekkingu og skilning á starfi umhverfisfræðinga með þverfaglega menntun,
  • efla samheldni og félagsvitund umhverfisfræðinga.
  Tillaga að breytingum
  Í stað „umhverfisfræðinga“ í neðsta lið komi „félagsmanna”.
  Lesin var upp greinargerð sem send var fyrir fund með tillögunum.
  Umræður um lagabreytingar:
  • Spurt var um hvort breyting á 2. gr. sé ætlað að hafa áhrif á aðild að félaginu. BB gerði grein fyrir hugsun á bak við tillögurnar, að það eigi að einbeita sér að félagsmönnum en ekki öllum þeim sem kalla sig umhverfisfræðinga. Félagið togar inn aðila sem styrkt geta starfsemi félagsins og félagsmenn og mun halda áfram að gera.
  • Fundarstjóri kallaði á upprifjun á umfjöllun um þessi mál. BB gerði grein fyrir tilraun til menntaflokkunar félagsmanna, og gerði grein fyrir að ástæða væri til að námsnefnd fjalli um umsóknir um félagsaðilid á hverjum og einum tíma m.a. sökum hraðrar þróunar menntunar á þessu sviði.
  • Ábending kom um að ástæða sé til að taka inn í félagið fræðimenn á sviðinu, t.d. Kvískerjabræður. Rætt var að opnari félagsaðild ryður sér rúms í félögum, sbr. Félag iðnhönnuða.
  • Í gildandi lögumer ákvæði um heiðursfélagaaðilid sem getur hugsanlega leyst ofangreint.
  • Nefnt var að veita mætti skólastofnunum aðhald ef félagsaðild væri þrengri.
  • Minnt var á grunn félagsins, að markmið hefði verið að félagsmenn hefðu svipaðan grunn, og félagið byggi til slagkraft þar sem allir tali á svipuðum grunni.
  • Ekki var skýr niðurstaða úr umræðum um hvert fundargestir vildu stefna í breytingum, og ljóst að taka þarf upp lagabreytingar að nýju á framhaldsaðalfundi.
  • Spurt var hvort umsóknir af hálfu aðila sem eru ekki með gráðu í umhverfisfræðum hafi borist? Já skv. formanni og hafa þeir umsækjendur unnið að umhverfismálum. Stjórn taldi fulla ástæðu til að viðhalda faglega þætti félagsins hvað varðar umsóknir, og leggja áherslu á þverfaglega mennntun.
  • Bent var á að hægt væri að bjóða upp á aukaaðild, með takmarkaðri rétti. Sumir töldu heiðursfélaganafnbótina betri.

4. Tillaga að félagsgjöldum var borin upp, lögð var fram tillaga um óbreytt félagsgjöld, 3.000 kr. Meirihluti viðstaddra samþykkti.

5. Tillögur að siðareglum fyrir FUMÍ voru bornar upp af Þorsteini Narfasyni, en nefnd um siðareglur vann tillögurnar. Reglurnar höfðu verið bornar undir Jón Kalmann siðfræðing sem kom með gagnlegar ábendingar. Fjölmörg félög og fyrirtæki hafa sett sér slíkar reglur, skoðaðar voru siðareglur verkfræðinga hér, háskólans og umhverfisfræðinga í bandaríkjunum sem mikið var miðað við.
Farið var yfir reglutillögur sem kynntar höfð verið fyrir aðalfund. Reglurnar voru taldar vera lágmarksreglur, sem hægt yrði að bæta við í framtíð. Fundarstjóri bætti við að ýmislegt hefði vafist fyrir nefndarmönnum, og óvenjulegt hefði verið að skipta þessu upp eins og gert var, en leiðarljós fyrir félagsmann annars vegar og félagið hins vegar voru markmið vinnunnar.

Umræður um siðareglur fóru fram:

 • Nefndinni var hrósað fyrir vinnu, og ánægja var með skiptingu. Spurt hvort horft hefði verið til mengunarreglunnar, bent á hvað varðar 5. gr. að spurning væri hvort viðfangsefnið sé ekki mikið á milli atvinnurekanda og félagsmanns, hvort of sé þrengt að og almannaheill skaðist með framsetningunni, og hvort 5. gr. sé yfirhöfuð þörf.
 • Formaður hafði efasemdir uppi um að rétt sé að hafa texta um að jafnvægi skuli ríkja á milli efnahags-, félags- og umhverfissjónarmiða sbr. 1.gr. og lagði til breytt orðalag um að huga þurfi að eða líta þurfi til hinna þriggja vídda sjálfbærar þróunar: efnahags, samfélags og umhverfis. Aðrir veltu upp hversu skýrt þarf að skilgreina sjálfbæra þróun, hvort neðsti hluti sé óþarfur. Fundarstjóri leit svo á að hugtakið sjálfbær þróun styrkist í umræðu, og að ekki eigi að negla þetta um of niður.
 • Spurt var hvað gerist ef siðareglur verða brotnar, hver tekur fyrir ef einhver, spurning hvort það sé atvinnurekandi og starfsmaður sem taka fyrir. Bent er á að 4. gr. eigi að vera næg til meðhöndlunar trúnaðarupplýsinga, og að 5. gr. sé að því leyti óþörf. Rætt um að siðareglurnar séu leiðarljós, leiðbeiningar. Bent var á að siðarreglur eru almennt til leiðbeiningar, og jafnvel þó úrskurðir séu felldir.

Bornar voru upp eftirfarandi tillögur að breytingum á tillögum að siðareglum:
Tillaga um að fella út úr 1. gr: út orðalag um jafnvægi þannig að greinin endi á náttúru. Tillagan var samþykkt einróma.
Tillaga um breytingu á 1. Gr.: í stað .... komi huga þarf að/ líta þarf til þriggja vídda... Ekki þurfti að greiða atkvæði um tillöguna þar sem ofangreind tillaga um 1. gr.var samþykkt.
Tillaga um að fella út 5. gr. siðareglnanna var samþykkt einróma.
Tillaga um breytingu á síðustu setningu 4. Gr. hljómi þannig: Félagsmenn FUMÍ skulu hafa heiðarleika, sanngirni og réttvísi að leiðarljósi í öllum samskiptum. Tillagan var samþykkt einróma.
Tillaga um að skipta upp 10 gr.sem hljómi svo: Stjórn FUMÍ ber að viðhafa trúnað innan stjórnar í þeim málefnum sem hún fjallar um og tengjast einstökum félagsmönnum á einn eða annan hátt. Jafnframt að 11. gr. hljómi svo : Stjórn félagsins ber að gæta jafnréttis milli félagsmanna sinna í öllum störfum sínum. Næstu greinar haldi sér eins og fram voru settar. Breytingarnar voru samþykktar einróma.
Að lokum voru siðarreglurnar bornar upp til samþykktar, og voru þær samþykktar einróma.

Hlé var gert á fundarhöldum kl. 17.35.

Fundur hófst á ný kl. 17.50.

6. Lögverndun starfsheitisins umhverfisfræðingur.
Anna Rósa Böðvarsdóttir kynnti umræðu nefndar en Ólafur Ögmundarson, Herdís Sigurjónsdóttir og Ólöf Vilbergdóttir tóku þátt í nefnd einnig. Staðan í dag er þannig að hver sem er getur kallað sig umhverfisfræðing, óljóst er hvað stendur á bak við það. Námsbrautir eru oft svipaðar og kenndar víða.

  a. Lögverndun: snýst um verndun starfsheiti annars vegar og hins vegar verndun atvinnuréttinda.
  b. Skoðaðar voru nálganir félags verkfræðinga, félags skipulagsfræðinga, og félags viðskipta- og hagfræðinga
  c. Kostir við að sækja um lögverndun
  • Styrkir ímynd umhverfisfræðinga þar sem ljóst er hvað liggur á bak við heitið.
  • Ekki geti hver sem er kallað sig umhverfisfræðing.
  • O.fl.
  d. Gallar
  • Starfsheitið nær yfir mjög breiðan hóp m. mismunandi bakgrunn
  • Getur kallað á breytinga á upphaflegum forsendum félagins
  • Ráðuneyti er ekki hrifið af að bæta við lista yfir lögvernduð starfsheiti.
  • O.fl.
  e. Ólöf tók við og gerði grein fyrir eftirfarandi:
  • Lögverndunarferill
   • 1. Sækja þarf um lögleiðingu til umhverfisráðuneytisins
  • Atriði með umsókn
  f. Menntaðir á Íslandi þyrftu ekki að sækja um

  Niðurstöður nefndar.
  1. Ályktaði tvívegis
  2. Síðari niðurstaða , þrjár tillögur
   a. Doktors- og mastersmenntaðir eingöngu fái löggildingu
   b. B.A, B.Sc, MS og PhD fái löggildingu
   c. Lagst verði gegn því að farið verði út í lögverndun starfsheitisins

  Nefndinni þótti fyrsta tillaga best.

  Umræður:
  Spurt var, ef tillögu a yrði framfylgt, hvaða áhrif hefði það á núverandi félagsmenn. Bent var á að finna þyrfti fordæmi fyrir löggildingu, en sú vinna væri eftir. Í sumum tilfellum er þannig að þegar löggildingu er komið á hafa félagsmenn með B.A. og B.Sc. með ákveðna starfsreynslu fengið löggildingu en nýjir félagsmenn yrðu að hafa Ma eða Dr, þ.e. sólarlagsákvæði.

  Rætt var um mikilvægi þess að félagsaðild og lögverndun haldist í hendur, og því velt upp að það sé galli þar sem það þrengi verulega félagsaðild umfram lagabreytingartillögur.

  Fleira var rætt, m.a. leyfisbréf, hvaða ráðuneyti gefa út löggildingu. Nefndin var spurð um hennar tillögu að framhaldi. Bent var á að þörf væri að sjá hver framtiðarfarvegur eigi að verða þar sem umræða um löggildingu hefur átt sér stað í mörg ár. Nefndarmenn viðstaddir töldu ástæðu til að vinna áfram, hugsanlega setja fram tillögu að frumvarpi, skoða fordæmi m.a. sálfræðinga, og hvort félagið hefði áhuga á að fara áfram með málið. Vegna aukins flækjustigs væri nauðsynlegt að ákveða sem fyrst ef farið yrði útí löggildingu, hvort fara þurfi saman félagsaðild og löggilding.

  Tillaga kom um að skilgreina markmið með umsókn um löggildingu, hvort félagaðild og löggilding þurfi að fara saman, og ef nefnd telur að komið sé að frumvarpi geti nefnd borið málið undir stjórn. Talið var m.v. það sem þekkt er, að fordæmi liggi fyrir, og því bendir allt til að félagsaðild og löggilding tengist mjög sterkum böndum, og að vel þurfi að liggja fyrir öll rök. Rætt var um hvernig félagið ætti að taka afstöðu til málsins þegar þar að kemur, með þátttöku allra eða á aðalfundi.

  Samþykkt var að nefndin haldi áfram vinnu sinni.

7. Erlent samstarf, Bergþóra Hlíðkvist Skúladóttir gerði grein fyrir.

a. Skoðuð voru samtökin EFAEP – European Federation of Associations of Environmental Professionals, stofnsett 2002, með aðsetur í Brussel www.efaep.org. Stjórn FUMÍ leist vel á að samtökin hafa þverfaglega stjórn. Viðtökur EFAEP við fyrirspurnum FUMÍ hafa verið góðar, svarað fljótt og af ákefð.

Umræður um viðfangsefnið:

 • Velt var upp hvert markmið með erlendu samstarfi félagsins ætti að vera. Árlegur kostnaður við þátttöku væri á núvirði um 50 þús. kr. íslenskar, og ef af þátttöku yrði þá bættist hugsanlega við frekari kostnaður með fulltrúa FUMÍ á þingum og atburðum. Markmið með erlendu samstarfi væri og gæti verið m.a. að opna gluggann útá við, styrkja fræðslu og þekkingu félagsmanna, og auðvelda tengslamyndun. Slíkt væri mikilvægt. Hugsanleg aðild geti stuðlað að auknum metnaði félagsins, og aðild að alþjóðlegri umræðu og nálgun við umhverfisvandamál. Hægt verði að nálgast fræðinga til innflutnings á málþing og fleira. Bent á að stíga þurfi varlega til jarðar í þessu efni.
 • Borin var upp tillaga um að stjórn skoði frekar félagið, og hvort ástæða sé til þátttöku. Tillagan var samþykkt einróma, og stjórn veitt umboð til að taka ákvörðun um þátttöku í EFAEP.

8. Kosningar til stjórnar

  a. Guðmundur Ingi Guðbrandsson var endurkjörinn formaður.
  b. Bergþóra Hlíðkvist Skúladóttir, Björn H Barkarson, Eygerður Margrétardóttir og Sigríður Droplaug Jónsdóttir voru endurkjörin í stjórn.
  c. Í varastjórn buðu sig fram Ólafur Ögmundarson, Hulda Steingrímsdóttir, Guðmundur Hörður Guðmundsson og voru þau sjálfkjörin.
  d. Páll Stefánsson og Ragnhildur Helga Jónsdóttir voru endurkjörin endurskoðendur.

  Fráfarandi varastjórnendum var þökkuð störf þeirra.

9. Önnur mál

  a. Í lagabreytinganefnd þarf að kjósa á hverju ári. Fram buðu sig Páll Stefáns, Jóna Bjarnadóttir. Stjórn var falið að tilnefna fulltrúa sinn í nefndina. Samþykkt einróma.
  b. Bent á að fjölmargir aðrir hafa unnið fyrir félagið og er þeim þökkuð þátttaka og vinna.
  c. Fundarstjóra var hrósað sérstaklega fyrir skelegga fundarstjórn og góða tímastjórnun.
  d. Formaður hélt ræðu og lýsti yfir ánægju með starf félagsmanna og þátttöku, þétt félag og ný andlit. Hvatti hann félagsmenn til að draga með sér hugsanlega félagsmenn á fundi og mannfagnaði.

Fleira var ekki rætt á fundinum. Fundi var slitið kl. 18.45.

Ingimundur Stefánsson ritaði fundargerð.

ORÐANEFND FUMÍ

Orðanefnd FUMÍ vinnur að íðorðasafni á sviði umhverfismála í samastarfi við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Hér er að finna lista yfir ýmis umhverfisorð og skilgreiningar á þeim. https://sites.google.com/site/umhverfisordh/

Tillögur að orðum sendist á umhverfisfraedingar@gmail.com